Áramótaskaupið 1968 nefndist „Í einum hvelli.“ Það var í umsjá Flosa Ólafssonar og Ólafs Gauks Þórhallssonar. Auk þeirra komu fram m.a. Bessi Bjarnason, Egill Jónsson, Gísli Alfreðsson, Jón Aðils, Róbert Arnfinnsson, Sigríður Þorvaldsdóttir, Þóra Friðriksdóttir og Sextett Ólafs Gauks ásamt Svanhildi Jakobsdóttur og Rúnari Gunnarssyni.
Áramótaskaupið 1970 var í höndum Flosa Ólafssonar. Hann sá um sjónvarpshandrit og leikstjórn. Magnús Ingimarsson útsetti og stjórnaði tónlist og samdi að hluta. Auk Flosa komu fram: Þóra Friðriksdóttir, Ævar R. Kvaran, Jón Aðils, Bessi Bjarnason, Jón Júlíusson, Laddi, Þuríður Friðjónsdóttir, Anna Geirsdóttir o.fl.
Áramótaskaupið 1971 átti upphaflega að vera í höndum Flosa Ólafssonar eins og árin á undan. Hann var fenginn til að skrifa handrit, en Jóni Þórarinssyni dagskrárstjóra þótti það bera of mikinn keim af fyrri skaupum. Hann lofaði þó að málið væri í góðum höndum, en Áramótaskaupið 1970 varð ekkert venjulegt skaup. Í stað þess var Gamlársgleði. Um hana sáu Ása Finnsdóttir og Ómar Ragnarsson. Þau tóku á móti gestum í sjónvarpssal og á milli var sungið, spilað og sprellað með léttu hjali. Meðal gesta voru: Bessi Bjarnason, Gunnar Eyjólfsson, Símon Ívarsson, Guðrún Á. Símonar, Þuríður Sigurðardóttir, Árni Johnsen, Björgvin Halldórsson, Ingimar Eydal og hljómsveit hans, Jónas R. Jónsson, Kristinn Hallsson, Ragnar Bjarnason, Sigurður Rúnar Jónsson og systkini og Þrjú á palli.
Áramótaskaupið 1972 var í raun ekkert áramótaskaup. Um var að ræða áramótagleðskap sem hét: Hvað er í kassanum? þar sem fjöldi þekktra og óþekktra listamanna kom fram. Kynnir var Vigdís Finnbogadóttir. Upptöku stjórnaði Tage Ammendrup.
Áramótaskaupið 1973 var ekkert eiginlegt áramótaskaup. En þess í stað var sýndur þáttur sem var nefndur Þjóðskinna. Þjóðskinna var helgaður ýmsum þjóðþrifamálum og merkisatburðum sem áttu sér stað 1973. Meðal efnis má nefna fréttir, fréttaskýringar og viðtöl, auk þess framhaldssögur, fjölda greina og fleira létt efni. Ritstjórar Þjóðskinnu voru Andrés Indriðason og Björn Björnsson, en leikstjóri var Laddi og um tónlistina sá Magnús Ingimarsson.