Fyrsti þáttur Fullveldisaldarinnar fjallar um árið 1918 og sýnir hvað gekk á í samfélaginu í aðdraganda fullveldisstofnunar. Hafði þjóð sem glímdi við kuldakast, dýrtíð, afleiðingar heimsstyrjaldar, eldgos og drepsótt burði til þess að standa á eigin fótum? Við fjöllum um hvernig samningar sambandslaganefndarinnar gengu fyrir sig og fáum innsýn inn í störf nefndarmanna.
Austurvöllur er án efa sá staður í Reykjavík þar sem hjartað slær. Torgið er tilvísun í hin evrópsku torg, en er samt sem áður alveg séríslenskt. Þar hittist þjóðin og deilir gleði, reiði og sorg.
Þriðji þáttur fjallar um ógnirnar sem steðjað hafa að landi og þjóð frá 1918. Alþjóðasamningar, alþjóðadeilur, eldgos og hamfarir eru meðal þess sem þar kemur við sögu. Viðmælendur í þættinum eru Gunnar Hálfdánarson prófessor og Páll Einarsson jarðvísindamaður.
Í þessum þætti er fjallað um menningarlegt uppgjör Dana og Íslendinga. Deilur um skinnhandrit úr fórum Árna Magnússonar og skil forngripa sem varðveittir voru í Danmörku ollu orrahríð á milli þjóðanna tveggja.
Miklar samfélagsbreytingar hafa orðið á síðustu hundrað árum samfara mikilli fólksfjölgun á mölinni. Í þessum þætti verður farið yfir áhrif þessara breytinga á börn og hvernig hagur þeirra hefur breyst á tímabilinu. Viðmælendur eru Sigurjón Björnsson prófessor í sálfræði, Dagný Kristjánsdóttir bókmenntafræðingur og Sigurður Gylfi Magnússon prófessor.
Í þessum þætti er fjallað um sauðfé, íslensku ullina, uppruna íslensku lopapeysunnar og hvernig hún hefur þróast frá því að vera duggarapeysa og vinnuflík yfir í tískuvöru. Viðmælendur: Ásdís Jóelsdóttir, lektor í textíl við Háskóla Íslands, og Trausti Hjálmarsson, bóndi í Austurhlíð í Biskupstungum.
Við gerð sambandslagasamningsins 1918 óttuðust margir Íslendingar að Danir myndu flykkjast til Íslands og setjast hér að en sá ótti reyndist ástæðulaus. Í gegnum tíðina hefur þó ýmsum þótt álitlegt að flytja hingað, bæði í atvinnuleit og í leit að skjóli. Viðmælandi í þessum þætti er Hallfríður Þórarinsdóttir, doktor í mannfræði.
Í þessum þætti er fjallað um þróun fjölmiðla á fullveldisöld. Viðmælandi er Þorbjörn Broddason prófessor emeritus.
Í þessum þætti er fjallað um aðdraganda lýðveldisstofnunar og sjálfstæði þjóðarinnar. Viðmælendur eru Svanur Kristjánsson prófessor og frú Vigdís Finnbogadóttir.
Í þessum þætti er fjallað um Kristján konung X og merkilegar dagbækur sem hann hélt, sem fjölluðu meðal annars um mál Íslands.