Katrín Gunnarsdóttir er metnaðarfull rannsóknarlögreglukona með augastað á stöðu yfirmanns rannsóknardeildarinnar. Þegar eldri karlmaður finnst myrtur við Reykjavíkurhöfn undir óvenjulegum kringumstæðum og Katrín er kölluð á vettvang fer af stað atburðarás sem hún hefur litla stjórn á.
Arnar Böðvarsson er fenginn til landsins til að hjálpa lögreglunni í Reykjavík við rannsókn á morðunum þar sem grunur leikur á að raðmorðingi gæti verið á ferðinni. Arnar er dularfullur rannsóknarlögreglumaður sem hefur búið lengi í Osló og heimkoman hrærir upp í gömlum minningum.
Eldri kona finnst látin á unglingaheimilinu Valhöll og virðist sami morðingi hafa verið að verki. Lögreglan er engu nær um ástæður morðanna eða hver stendur á bak við þau.
Þegar í ljós kemur að síðasti starfsmaður Valhallar er enn á lífi óttast Kata og Arnar að raðmorðinginn finni hann á undan þeim. Á sama tíma kafar lögreglan dýpra ofan í skuggalega sögu unglingaheimilisins og drengjanna sem voru þar.
Kata og Arnar telja sig loks vera komin á spor raðmorðingjans en rannsóknin leiðir þau á slóðir sem þau áttu síst von á. Erfiðleikar í einkalífi þeirra beggja taka sinn toll.
Óvæntir atburðir í rannsókn málsins reynast bæði Kötu og Arnari þungbærir. Hún á erfitt með að sleppa takinu og draugar úr fortíð Arnars, sem hann hefur lengi reynt að halda í skefjum, láta á sér kræla á ný.