Bjarni Hafþór setti tappann í flöskuna fyrir mörgum árum síðan og hefur höndlað alkóhólismann með æðruleysi í meira en aldarfjórðung. Fyrir 6 árum greindist hann með Parkison og hefur baráttan við þann sjúkdóm reynst kröfuharðari en margt annað sem á daga hans hafa drifið. En með húmorinn að vopni tekst hann á við þetta erfiða verkefni og eru sögur hans af þessum sjúkdómum kostulegar.
Uppeldisárin á Húsavík eru Bjarna Hafþóri minnisstæð. Í þessum þætti rifjar hann upp sprenghlægilegar sögur af afa sínum og ömmu og minnist margra ógleymanlegra atvika sem á daga þeirra dreif. Jafnvel í tengslum við erfiðustu sjúkdóma gömlu hjónanna er húmorinn aldrei langt undan.
Bjarni Hafþór minnist áranna á Húsavík í einstöku fjölskyldulífi á æskuheimilinu á Grafarbakka þar sem frásagnargleði og kímnigáfa voru allsráðandi. Veikindasögur af ýmsum toga og ótrúleg umgengni föður hans um pillur er meðal þess sem hér er tekið til umfjöllunar með eftirminnilegum hætti.
Samskipti Bjarna Hafþórs við hjúkkur og lækna hafa í reynd verið með einstökum hætti í gegnum tíðina. Hefur hann margoft komið sjálfum sér og sérfræðingum á sjúkrahúsum í miður þægilegar kringumstæður. Í þessum þætti rifjar hann upp fyndnar og vandræðalegar uppákomur í heimsóknum sínum á ýmsar heilbrigðisstofnanir landsins.